Gisting á Akranesi

Bóka hér (book now)!

Litla gistihúsið við sjóinn Bakkatúni 20, 300 Akranesi

Opin allt árið - reyklaust. Svefnpokapláss, uppbúin rúm og eldunaraðstaða.  Þrjú herbergi sem taka samtals 6-10 manns.

GPS hnit: 64°18'58.03"N, 22°5'37.74"W (ISN93: 350.388, 427.422)

Akranes er rúmlega 6000 manna bæjarfélag við norðanverðan Faxaflóa. Frá upphafi hafa fiskveiðar og vinnsla verið undirstöðu atvinnuvegur íbúanna, þó í seinni tíð hafi verslun, þjónusta og framleiðsla ýmiskonar bæst við, auk þess að hér er Sjúkrahús og öflugir skólar. Ör stutt er frá Akranesi á marga helstu sögustaði landsins um allan Borgarfjörð, við Hvalfjörð og á Kjalarnesi. Á Skaganum er einstaklega gott að fara í gönguferðir, íþróttaaðstaða öll til fyrirmyndar, sundlaugar, golfvöllur o.m.fl. Einnig þjónustufyrirtæki, veitingastaðir, mjög góðar verslanir og áhugavert listafólk. Að ógleymdu safnasvæðinu á Görðum, þar er auk byggðasafns, íþrótta- og steinasafn.

Húsið á Bakkatúni 20 er byggt árið 1930 og var mjög stórt á þess tíma mælikvarða og stendur við eina fallegustu götu í eldri hluta bæjarins, svo kölluðum Neðri-Skaga. Á góðviðrisdögum er kvöldfegurð einstök við Bakkatún, flesta daga er ríkulegt fuglalíf. Þegar veður er verra (sem er sjaldan!) sérstaklega á veturnar fylgir stórbrotnu brimi og sjógangi alveg einstök orka sem lætur engan ósnortin. Í næstu götu má sjá fjöllin í Borgarfirði og allan Snæfellsnes fjallgarðinn þar sem Snæfellsjökullinn er kóróna sköpunarverksins, Snæfellsjökull sem þekktur er um víða veröld vegna orku sinnar, fegurðar, eldvirkni og einstakrar stöðu í heimsbókmenntunum.

Gistingin á Bakkatúni tók til starfa laugardaginn 14. mars 2009. Gestgjafinn hefur áratuga reynslu af ferðaþjónustu, hún heitir Jóhanna Leópoldsdóttir. Bakkatún liggur á milli Slippsins og Bíóhallarinnar og er steinsnar (5-7 mín gangur) frá gamla bæjartorginu þar sem finna má t.d. endastöð Strætó frá Reykjavík, kaffihús, bakarí, banka, hraðbanka og gömlu sundlaugina. Næsta matvöruverslun er í innan við 10 mín göngufæri.

Gistingin er opin allt árið. Í boði er uppbúin rúm og svefnpokapláss í 3 herbergjum fyrir 6-10 manns. Gistingin er reyklaus. 

Í boði eru þrjú 2ja manna herbergi í kjallara hússins. Sér inngangur og sér aðkeyrsla. Öll með handlaug en baðherbergi er sameiginlegt sem og eldunaraðstaða. Kaffikanna, brauðrist, eldavél, pottar, diskar og flest það sem til þarf. Þvottavél og útisnúrur. Á góðviðris dögum er hægt að borða út í garði. Þráðlaust internet er til afnota án aukagjalds.

Herbergi nr. 1 er 10 fm2 með tveimur 90 cm rúmum.

Herbergi nr. 2 er 14 fm2 með tveimur 90 cm breiðum rúmum. Auk þess e hægt að nýta svefnsófann sem er í herberginu (útdreginn 140 cm breiður) gegn auka gjaldi.

Herbergi nr. 3 er 14 fm2 með einu "Queen size" rúmi (153 cm) sem hentar vel fyrir ástfangið fólk á öllum aldri.

2009-15 © Litla gistihúsið við sjóinn, co/Jóhanna Leópoldsdóttir, Bakkatúni 20, 300 Akranesi, 695 6255 & 588 3089